Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands og borgarstjóri London, virðist ekki vera að lepja dauðan úr skel eftir að hafa sagt af sér sem ráðherra í júlí síðastliðnum.

Samkvæmt frétt Bloomberg fékk hann 94.500 pund greidd fyrir tveggja tíma ræðu sem hann hélt fyrir bandaríska vogunarsjóðinn GoldenTree Asset Management þann 2. nóvember síðastliðinn. Nemur greiðslan því um 15 milljónum íslenskra króna sem gerir tímakaup upp á 7,5 milljónir.

Samkvæmt hagsmunaskráningu breska þingsins var einnig greitt fyrir ferðakostnað Boris sem er enn þingmaður Íhaldsflokksins þrátt fyrir að hafa látið af störfum sem ráðherra. Hann er einn þeirra þingmanna sem fær hvað hæstar greiðslur fyrir störf utan þingsins en hann fær árlega um 250.000 pund fyrir greinaskrif í The Telegraph

Í frétt Bloomberg er einnig bent á að greiðslan til Boris er hærri en það sem Citigroup greiddi George Osborne, fyrrum fjármálaráðherra Bretlands fyrir tvær ræður sem hann hélt skömmu eftir honum var vikið úr starfi ráðherra árið 2016. Nam greiðslan til Osbourne 85.000 punda.

Golden Tree sem stýrir um 28 milljörðum dollara tók á dögunum yfir skoska dagblaðið “i” auk 200 annara blaða eftir að breska útgáfufyrirtækið Johnston Press fór í gjaldþrotameðferð á dögunum .