*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 4. mars 2015 07:44

Bótaþegum gæti fækkað um þriðjung

Vinnufærir fá ekki bætur nema þeir séu í atvinnuleit samkvæmt nýju frumvarpi.

Ritstjórn
-

„Það er nokkuð um krakka sem eru orðnir 18 ára, hætta í skóla og sækja um bætur. Sum eru vinnufær, en vilja hreinlega ekki vinna,“ segir Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið.

Þar kemur fram að talið sé að þriðjungur þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögunum vegna atvinnuleysis og slæmrar fjárhagsstöðu hverfi af bótunum verði settar skýrari reglur um þær og þess krafist að þeir verði virkir í atvinnuleit.

Slík tillaga liggur fyrir í frumvarpi velferðarráðherra um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem nú er til meðferðar í velferðarnefnd. Verði frumvarpið að lögum myndu útgjöld sveitarfélaga til fjárhagsaðstoðar lækka um 100-150 milljónir á ári.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur skilað umsögn um frumvarpið þar sem því er fagnað og lagt til að það verði afgreitt á yfirstandandi þingi.