Sir Richard Branson, stofnandi Virgin Group veldisins, hefur selt hluta af hlutabréfum sínum í geimferðafyrirtækinu Virgin Galactic fyrir um 300 milljónir dala. Reuters greinir frá.

Í kjölfar sölunnar lækkaði gengi bréfa félagsins um ríflega 3%. Alls seldi Branson ríflega 10 milljónir hluta á tímabilinu 10. til 12. ágúst sl.

Fyrir um mánuði síðan var Branson meðal farþega í fyrsta tilraunafarþegaflugi Virgin Galactic út í geim.

Eftir söluna á Branson nú um 46,3 milljónir hluta í geimferðafyrirtækinu og nemur verðmæti eignarhluta hans um 1,2 milljörðum dala. Hann hefur smátt og smátt verið að losa um hlut sinn í félaginu en í apríl sl. seldi hann hluti fyrir um 150 milljónir dala.