Brasilíski auðjöfurinn Joseph Safra hefur keypt Gherkin-turninn í London. Er kaupverðið talið nema yfir 700 milljónum punda, en það jafngildir um 138 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá þessu.

Lokið var við byggingu turnsins árið 2004 og var hann upphaflega í eigu tryggingafyrirtækisins Swiss Re. Það seldi hann hins vegar árið 2006 fyrir 600 milljónir punda til sjóðs á vegum þýska félagsins IVG Immobilen og breska fjárfestingarfélagsins Evans Randall.

Kaupendurnir hafa hins vegar átt í fjárhagsörðugleikum síðastliðin fimm ár og ekki getað staðið skil á 395 milljóna punda láni sem þeir tóku við fjármögnun kaupanna. Var turninn því settur á sölu fyrr á árinu og hefur brasilíski auðjöfurinn nú fest kaup á byggingunni.