Þrátt fyrir að Andersen & Lauth, sem nú heitir reyndar K7 ehf, hafi verið gert að greiða Gunnari Hilmarssyni 1,8 milljónir króna í í vangoldin laun og orlof með dómi héraðsdóms í dag er erfitt að líta á niðurstöðuna sem fullnaðarsigur fyrir Gunnar.

Gunnar hafði farið fram á að fá greiddan uppsagnarfrest og gerði hann kröfu um að fá rúmar 2,7 milljónir króna greiddar frá fyrirtækinu. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur segir hins vegar að Gunnar hafi sýnt af sér ávirðingar í garð fyrrverandi vinnuveitanda, m.a. með því að hafa tekið að sér launuð verkefni fyrir aðra á meðan hann var samningsskuldbundinn fyrirtækinu. Þá hafi hann hafið undirbúning eigin starfsemi í samkeppni við Andersen & Lauth á meðan hann var í vinnu fyrir fyrirtækið. Hvort tveggja hafi verið brot á ráðningarsamnings og hluthafasamkomulags.

Í þessu hafi falist veruleg vanefnd af hálfu Gunnars auk þess sem hætta hafi verið á áframhaldandi samningsbrotum. Hafi fyrirtækinu því verið heimilt að víkja honum úr starfi fyrirvaralaust með þeim hætti sem gert var þann 26. apríl í fyrra. Því hafi hann ekki átt rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti. Hins vegar hafi hann átt rétt á launum frá 1. apríl til 26. apríl auk orlofs og orlofsuppbótar fyrir tímabilið 1. maí 2011 til 26. apríl 2012 auk hlutfallslegar desemberuppbótar. Voru málsaðilar hvor um sig látnir bera sinn kostnað af málinu.