Á síðustu 12 mánuðum hefur gengi bréfa deCODE hækkað um 44%, og stendur nú í 9,35 dollurum á hlut. Þegar deCODE var skráð á Nasdaq hlutabréfamarkaðinn haustið 2000, var útboðsgengið hins vegar 18 dollarar á hlut og er gengið í dag því töluvert undir upphaflegu gengi. Í úttekt greiningardeildar Landsbankans, sem birtist í Vegvísi þeirra í dag, kemur fram að bréf deCODE hafa staðið sig vel í samanburði við þau félög sem skráð voru á sama tíma.

Athyglisvert er að bera gengisþróun deCODE saman við gengisþróun annarra hlutafélaga í sambærilegum rekstri. Fjármálafyrirtækið Lehman Brothers birti greiningu á deCODE í ágúst árið 2000, aðeins um mánuði eftir að deCODE var skráð á hlutabréfamarkað. Þar var m.a. fjallað um helstu samkeppnisaðila, eða fyrirtæki með starfsemi á sambærilegum vettvangi og deCODE. Talin voru upp átta félög og voru stærst þeirra Millenium Pharmaceutical og Human Genome Sciences, sem þá voru metin á 12 ma.USD (3,3 ma.USD í dag) og 9 ma.USD (1,2 ma.USD í dag). Markaðsvirði deCODE var þá metið á 1,2 ma.USD en í dag er það um 509 m.USD.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að gengi bréfa í deCODE hefur sveiflast mikið frá ársbyrjun 2001, en lægst fór gengi bréfanna í 1,6 USD á hlut í september 2002 en hæst í 13,2 USD í febrúar 2004. Á síðustu tólf mánuðum hefur gengi bréfanna haldið áfram að sveiflast en gengi bréfanna hefur lægst farið í 5,09 USD en hæst í 10,67 USD á þessu ári.

Umfjöllun fjölmiðla hefur haft talsverð áhrif á gengi deCODE en jákvæðar fréttir af lyfjaþróun fyrirtækisins hefur ýtt undir hækkanir á félaginu frá því á seinnihluta árs 2003. Frá þeim tíma hefur gengi bréfa deCODE hækkað umtalsvert meira en meðalgengi sambærilegra félaga, þrátt fyrir talsverðar verðsveiflur. Hækkanir deCODE umfram sambærileg félög má án efa skýra með aukinni trú fjárfesta á að fjárfestingar félagsins í rannsóknum og lyfjaþróun muni skila árangri.