Hlutabréf GameStop hækkuðu um ríflega 40% í gær og ku hækkunin að mestu leyti vera byggð á væntingum um að einstaklingar vestanhafs muni nýta sér 1.400 dala fjárstuðning bandarískra stjórnvalda til að fjárfesta í hlutabréfum. Reuters greinir frá.

Nam hækkun bréfa GameStop 41,2% í viðskiptum gærdagsins og nam gengi bréfanna í kjölfarið 194,5 dölum á hlut. Þegar best lét, í lok janúar, nam gengi bréfa GameStop 347,5 dölum á hlut.

Önnur hlutabréf sem einstaklingsfjárfestar á spjallborðum líkt og WallStreetBets á Reddit hafa tekið ástfóstri við hækkuðu einnig verulega í viðskiptum gærdagsins.