Ljóst er að traust manna á fjármálakerfi Íslendinga hefur beðið gífurlegan hnekki og er Seðlabanki Íslands þar ekki undanskilinn, segir m.a. í bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Bréfið var sent Davíð í gær. Sambærileg bréf voru send hinum bankastjórnunum tveimur.

Fram kom í máli Jóhönnu á blaðamannafundi í dag að hún og Davíð hefðu ræðst við í síma í morgun og að hann hefði ekki ákveðið hvort hann hygðist verða við ósk ríkisstjórnarinnar um að hann víki.

Í bréfi Jóhönnu segir að umtalsverðir þjóðhagslegir hagsmunir séu fólgnir í því að það takist að endurvekja traust í fjármálakerfinu „og ber ríkisstjórninni skylda til að skoða allar mögulegar leiðir í því sambandi."

Síðan segir, varðandi Seðlabankann, að það sé mat ríkisstjórnarinnar að til að endurreisa traust á bankanum sé nauðsynlegt að gera tilteknar breytingar á stjórnskipulagi hans.

„Mun ríkisstjórnin á næstu dögum leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands í því skyni."

Markmið þeirra breytinga séu að endurvekja traust með því að tryggja að yfir bankanum sé starfandi fagleg yfirstjórn. „Þannig verði dregið úr efasemdum um að faglega sé staðið að ákvörðunum Seðlabankans."