Nokia, stærsta farsímafyrirtæki í heimi, birti afkomutölur fyrir annan ársfjórðung í dag. Hagnaður fjórðungsins var 712 milljónir evra og jókst um 14% frá öðrum ársfjórðungi 2003. Samhliða afkomutölum birti fyrirtækið rekstraráætlun fyrir næstu fjórðunga. Nokia gerir ráð fyrir að hagnaður á þriðja ársfjórðungi muni lækka um allt að helming frá fyrra ári og að sala muni minnka. Ástæðan er sú að fyrirtækið hyggstað lækka verð til að ná aukinni markaðshlutdeild.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að hlutabréf félagsins hröpuðu í verði við tilkynninguna, bréfin lækkuðu mest um 18% innan dagsins í Kauphöllinni í Helsinki, en þegar markurinn lokaði nam lækkun dagsins 13,3%. Hlutabréf annarra símafélaga eins og Motorola, Ericsson og Siemens féllu í kjölfarið í verði þar sem að sérfræðingar búast við að samkeppnisaðilar Nokia fylgi verðlækkunum þess eftir.

Framlegð Nokia sem hlutfall af sölu hefur farið lækkandi, t.a.m. var framlegðin 19,1% á öðrum fjórðungi þessa árs samanborið við 27,2% á sama fjórðungi fyrra árs. Vegna áðurnefndra verðlækkana býst félagið við að framlegðin haldi áfram að lækka á seinni helmingi ársins. Markaðshlutdeild Nokia hefur minnkað um tæp 6% á einu ári samkvæmt greiningarfyrirtækinu Gartner, og var 28,9% á fyrsta fjórðungi ársins. Helsta ástæða fyrir minnkandi markaðhlutdeild fyrirtækisins er sú að helstu keppinautar hafa verið mun fyrr á ferðinni með nýjungar í farsímamálum, eins og t.d. litaskjái og myndavélar.