Gengi hlutabréfa Vodafone féll um 10% í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í dag. Árshlutauppgjör félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung var birt eftir lokun markaða í gær . Kynning á uppgjörinu fór fram í morgun í höfuðstöðvum Vodafone.

„Er ég sáttur við þetta uppgjör? Nei, alls ekki,“ sagði Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, meðal annars á fundinum. Hann var ítrekað spurður um tekjusamdrátt félagsins og skýringar á slöku uppgjöri félagsins á fundinum. Hann benti á að fjárfestar þyrftu að hafa trú á félaginu og stjórnendum þess.

Í máli Ómars kom meðal annars fram að engar uppsagnir væru framundan þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir í rekstri. Aðspurður um hvað fælist í slíkum aðgerðum svaraði Ómar að verkefnum yrði forgangsraðað og til að mynda væri „ráðningarfrost“ innan fyrirtækisins.