Brellibrögð dugðu ekki bandaríska tæknifyrirtækinu Digital Domain Media Group til að forða sér frá gjaldþroti. Fyrirtækið óskaði eftir heimild til greiðslustöðvunar samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum á dögunum. Nú er unnið að því að leysa fyrirtækið upp og selja eignir.

Kanadíski leikstjórinn James Cameron stofnaði fyrirtækið á sínum tíma og eru þekktustu verkin sem starfsmenn þess unnu stafræna tæknibrellur sem kvikmyndahúsagestir sáu í sjóslysamyndinni Titanic þar sem hjörtu þeirra Leonard DiCaprio og Kate Winslet slógu í takt. Myndin var frumsýnd árið 1997 og skilaði Cameron þremur Óskarsverðlaunum. Á meðal annarra mynda sem fyrirtækið vann við voru Pirates of the Caribbean: At World's End og Tranformers-kvikmyndirnar.

Samkvæmt umfjöllun AP-fréttastofunnar af málinu hefur fyrirtækið stækkað mikið upp á síðkastið, svo sem unnið að byggingu nýs stúdíós. Þegar fyrirtækið gat ekki greitt af lánum var útséð um framhaldið og var því óskað eftir greiðslustöðvun.