Breska dagblaðið The Guardian fjallar ítarlega í dag um ákærurnar á hendur forsvarsmönnum Baugs. Blaðið hefur ákærurnar undir höndum en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins gerðu Jón Ásgeir Jóhannesson og félagar sérstakt samkomulag við The Guardian um að blaðið fengi ákærurnar í hendur á undan öðrum fjölmiðlum. Svipað samkomulag mun hafa verið í bígerð gagnvart Fréttablaðinu.

Eins og komið hefur fram eru ákærurnar í 40 liðum en ákæra hefur verið gefin út á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, Tryggva Jónssyni, fyrrum forstjóra félagsins, Jóhannesi Jónssyni stjórnarmanni og Kristínu Jóhannesdóttur. Auk þess sem endurskoðendur félagsins eru ákærðir.

Samkvæmt frétt The Guardian tengjast nítján ákæranna viðskiptum Baugs við önnur fyrirtæki, þar á meðal við Gaum, sem er fjárfestingarfélag Jóns Ásgeirs og fjölskyldu. Þá tengjast ákærurnar einnig kaupunum á 10/11, skemmtibátnum The Viking, og viðskiptum með hlutabréf í Arcadia. Einnig er ákært fyrir bókhaldsmál og tollasvik.