Breska pundið lækkar á sama tíma og skoðanakannanir sýna meirihluta fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Nýjasta könnun Observer/Opinion sýnir fylgi við að yfirgefa sambandið vera í 43% en 40% vilja vera áfram í sambandinu. Einnig hefur breska pundið náð sínum lægsta punkti miðað við síðustu þrjár vikur. Jafnframt er talið að útganga muni veikja evruna.

Fylgisaukning útgöngusinna vegna innflytjendamála

Niðurstaða könnunarinnar sýnir að það hallar á þá sem vilja halda Bretlandi í sambandinu en síðasta könnun þar á undan sýndi aðildarsinna með 44% en andstæðinga 40% ásamt því að 14% voru óvissir. Virðast innflytjendamál hafa þar mikil áhrif en 41% þeirra sem svöruðu könnuninni nefna þau sem annan mikilvægasta áhrifavaldinn á hvernig þeir munu kjósa.

Undanfarnar vikur hafa fréttir um aukna bátaumferð frá Afríku verið áberandi ásamt frásögnum af hörmulegum dauðsföllum þeirra sem lagt hafa út á hafið á lélegum bátum.