Hagkerfi Bretlands dróst saman um 0,2% á fyrsta fjórðungi ársins. Þetta er annar fjórðungurinn í röð sem breskt efnahagslíf dregst saman. Almenna þumalputtareglan segir að þegar það gerist megi segja að kreppa sé skollin á. Samanlagður samdráttur þessa tvo ársfjórðunga nemur 0,5%.

Niðurstaðan nú er þvert á væntingar um 0,1% hagvöxt á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar nam samdrátturinn í bresku efnahagslífi 7,1% í fjármálakreppunni á árabilinu 2008 til 2009 og hefur batinn síðar þá verið hægur.

Samkvæmt því sem Reuters-fréttastofan hefur upp úr gögnum bresku hagstofunnar hafa byggingaframkvæmdir dregist mikið saman ofan á minni framleiðni.

Fréttastofan segir niðurstöðuna slæmar fréttir fyrir ríkisstjórn David Cameron. Mjög hefur dregið úr stuðningi við hana auk þess sem hagtölurnar kunni að setja þrýsting á hana í sveitarstjórnarkosningum í næstu viku. Ekki bætir úr skák að Cameron hefur verið gagnrýndur fyrir óþægilega náin tengsl við ástralska fjölmiðlamógúlinn Rupert Murdoch.