Ákveðið hefur verið að hætta við loftrýmisgæslu Breta yfir Íslandi. Sú ákvörðun var tekin á vettvangi NATO. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem nú stendur yfir í Ráðherrabústaðnum.

Til stóð að Bretar sinntu loftrýmisgæslunni í desember, samkvæmt samkomulagi við NATO frá því í sumar. Nú hefur hins vegar, að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, verið hætt við hana.

"Það er hætt við þessar æfingar af ástæðu sem NATO getur best útskýrt," sagði Geir aðspurður um þetta á blaðamannafundinum. "Ég tel það heppilegast í stöðunni," bætti hann við.

Hann tók þó fram að hann héldi að ekki væri hægt að tengja þessa ákvörðun við Icesave-reikningana í Bretlandi.

NATO var upplýst um umræðuna á Íslandi

Ingibjörg Sólrún sagði aðspurð að NATO hefði verið upplýst um þær umræður sem hefðu átt sér stað um þetta mál hér á landi. Þetta væri þó ákvörðun NATO.

Geir tók undir það og sagði að íslensk stjórnvöld hefðu ekki farið fram á þetta. Þetta væri ákvörðun NATO.

Ekki kom fram á fundinum hvort einhverjir aðrir myndu sinna gæslunni í stað Breta eða hvort yfirhöfuð einhverjir myndu sinna henni í desember.