Búast má við því að allt að 100 þúsund manns missi vinnuna í janúar og er jafnvel gert ráð fyrir að því að fjölmargir fái uppsagnabréf strax á morgun þegar flestir mæta til vinnu á ný eftir áramótin.

Þetta kemur fram í úttekt breska blaðsins The Daily Telegraph um vinnumarkaðinn í Bretlandi sem fjallar um málið undir fyrirsögninni; Blóðbað á vinnumörkuðum á nýju ári.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að margir vinnuveitendur hefðu viljað bíða með uppsagnir þangað til eftir jól og áramót en geti ómögulega beðið lengur með að segja upp fólki.

Þá ert gert ráð fyrir því að febrúar og mars verði enn verri hvað varðar fjöldauppsagnir en búist er við því að allt að 650 þúsund manns verði sagt upp á árinu og flestum á fyrstu fimm mánuðum ársins.

Þá hefur Telegraph eftir viðmælendum sínum úr atvinnulífinu að öll fyrirtæki, stór og smá, sjái sig tilknúin til að endurskipuleggja starfssemi sína á næstu vikum og mánuðum.

„Það þurfa allir að taka til. Það er alveg ljóst að fyrirtækin geta ekki haldið í vonina um að hjólin fari í gang á næstu sex mánuðum því það mun augljóslega taka lengri tíma,“ segir Howard Wheeldon, ráðgjafi hjá BGC Partners í samtali við Telegraph.

Þá er minnst á íslenska félagið Bakkavör í grein Telegraph þar sem talið er að allt að 400 manns (af 2.000) verði sagt upp á árinu.

Breska viðskiptaráðuneytið gerir ráð fyrir því að um 3,1 milljón manna verði atvinnulaus í lok ársins sem telur um 10% atvinnuleysi.