Kirkjuleiðtogar í Bretlandi hafa fjallað mikið um fjármálakrísuna og efnahagsástandið í prédikunum sínum nú um hátíðarnar.

Að sögn breska blaðsins the Daily Telegraph hafa margir þeirra minnt á þá sem minna mega sín og varað við því að þeir gleymist í tali og áhyggjum af fjármálakreppu.

Þá hafa margir leiðtogar kaþólsku kirkjunnar á Bretlandi talað um það traust sem hefur glatast í kjölfar lausafjárkrísunnar. Þannig hafi fólk glatað trausti á náunganum, sjálfum sér og hugsanlega framtíðinni þar sem milljónir manna væru nú í mikilli ringulreið vegna krísunnar.

Murphy-O'Connor, erkibiskup í Westminster sagði hegðun ýmissa manna hafa gert það að verkum að erfitt sé að mynda traust á ný.

Í ræðu sinni sagði O‘Connor að kristindómurinn hvorki fordæmdi né upphefði markaðshagkerfi og það væri hluti af okkar daglegu lífi.

„En við skulum ekki gleyma því að hagkerfinu er stjórnað af mönnum, þetta er ekki náttúrulögmál líkt og þyngdaraflið,“ sagði O‘Connor í ræðu sinni.

„Þeir sem stýra markaðnum bera ábyrgð og þurfa að haga sér með þeim hætti að það gagnist öllum, ekki bara einstaka hópum.“