Framleiðslukostnaður í Bretlandi lækkaði óvænt í júlí samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Bretlands en frá þessu er greint á fréttavef BBC.

Þannig lækkaði framleiðslukostnaður um 0,6% milli mánaða í júlí sem er mesta lækkun milli mánaða frá því í janúar 2007. Hins vegar hefur kostnaður aukist um 30,1% milli ára að sögn BBC.

Þannig hafa breskar framleiðsluvörur hækkað um 10,2% á milli ára en þá er miðað við kostnað varanna úr verksmiðjum.

BBC hefur eftir greiningaraðilum að hjöðnun á hækkun olíuverðs í júlí sé lykilþáttur í lækkandi framleiðslukostnaði. Þá hafa vörur aðrar en matvörur, áfengi,tóbak og eldsneyti aðeins hækkað um 6,6% milli ára þannig að mesta aukningin er í fyrrgreindum vörum.