Húsnæðisverð á Bretlandi gæti lækkað um meira en 25% á næstu 18 mánuðum, að mati sérfræðinga eftir að nýjar hagtölur sýndu að verulega hefur dregið úr umsvifum á fasteignamarkaði.

Stærstu bankar Bretlands hafa ekki veitt jafn fá lán gegn veði frá því að mælingar hófust fyrir ellefu árum, að því er fram kemur í frétt The Daily Telegraph.

Lán sem bankarnir veittu í maímánuði voru 28 þúsund talsins. Það er 20% lækkun frá því í mánuðinum á undan og ríflega 56% samdráttur frá því á sama tíma fyrir ári, samkvæmt gögnum frá Bresku bankasamtökunum.

Húsnæðisverð á Bretlandi hefur nú þegar lækkað um 5% á einu ári. Sérfræðingar segja að fátt geti komið í veg fyrir að verðið haldi áfram að lækka hratt á komandi mánuðum.

Daily Telegraph hefur eftir Michael Saunders, aðalhagfræðingi Citigroup á Bretlandi, að þetta sé „enn ein vísbendingin um að breski húsnæðismarkaðurinn sé í frjálsu falli. Spá okkar sem byggist á almennum forsendum – ekki áhættumeiri forsendum – gerir ráð fyrir því að húsnæðisverð lækki um 20% á þessu ári og því næsta."

Howard Archer, aðalhagfræðingur hagrannsóknarfyrirtækisins Global Insight, segist reikna með svipaðri lækkun á húsnæðismarkaði. "Við spáum því að húsnæðisverð muni lækka um 24% að nafnverði frá því að það stóð hæst í ágústmánuði og til ársloka 2009."

Sérfræðingar segja að samdrátt í húsnæðislánum til einstaklinga megi einkum rekja til versnandi vaxtakjara í kjölfar lánsfjárkreppunnar á fjármálamörkuðum.

Bresku bankasamtökin vara við því að margir einstaklingar standi frammi fyrir þeirri hættu að vera með neikvæða eiginfjárstöðu – skulda meira en þeir eiga – samfara því að húsnæðisverð heldur áfram að lækka.

Hins vegar er á það bent í frétt Daily Telegraph að rétt sé að halda því til haga að húsnæðisverð á Bretlandi hækkaði um 190% á landsvísu á tímabilinu 1997 til 2007. Það sé því hvort tveggja óumflýjanlegt og eðlilegt að leiðrétting eigi sér stað á húsnæðismarkaðnum um þessar mundir.