Innanríkisráðherra Bretlands, John Reeds, gerði í gær opinberar áætlanir um að takmarka aðgengi vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins, segir í frétt Financial Times.

Rúmenía og Búlgaría munu ganga inn í sambandið í janúar á næsta ári og verður þúsundum íbúa þeirra meinað aðgengi að vinnumarkaði Bretlands.

Matvinnsla og landbúnaður verða einu atvinnugreinarnar sem verða opnaðar fyrir ófaglærðum íbúum Búlgaríu og Rúmeníu. Með þessum aðgerðum er miðað að því að hafa taumhald á fjölda innflytjenda frá nýju aðildarríkjunum, en þingið þarf þó að samþykkja þær fyrst.

Aðrar atvinnugreinar verða að sýna fram á raunverulegan skort á vinnuafli til að breytingar verði gerðar á, og þá verður aðgengi vinnuafls frá nýju aðildarríkjanna aðeins aukið í takmörkuðum mæli.

Í stað þess að ófaglærðir aðilar fái óhindraðan aðgang að vinnumarkaðnum fá þeir nú aðeins aðgengi að ákveðnum starfsgreinum og faglærðir aðilar þurfa að afla sér atvinnuréttinda sem þurfa samþykkis atvinnurekendans, en sama gildir um aðila utan Evrópusambandsins.

Reglurnar munu standa í eitt ár að minnsta kosti, en Bretland er fyrsta stóra Evrópusambandsríkið sem grípur til slíkra aðgerða.

Bæði ríkisstjórn Bretlands og atvinnurekendur voru hlynntir því að veita Póllandi og þeim þjóðum sem gengu inn sambandið árið 2004 óheftan aðgang að atvinnumarkaði Bretlands. Það var gert á þeim grundvelli að skortur væri á vinnuafli í mörgum hliðum atvinnulífsins og að það myndi einnig halda launaverðbólgu í skefjum.

En svo virðist sem ríkisstjórnin hafi verulega vanmetið straum vinnuafls frá Póllandi og Austur-Evrópu inn í landið. Ríkisstjórnin spáði því upphaflega að 13 þúsund aðilar frá Austur-Evrópu myndu sækja á vinnumarkaðinn, en opinberar tölur sýna að um 300 þúsund eru skráðir í vinnu. Spáð er að um 41 þúsund Rúmenar og 15 þúsund Búlgarar myndu sækja á atvinnumarkað Bretlands ef aðgengi væri óhindrað.