Breskir íhaldsmenn kalla nú eftir sjálfstæðri rannsókn á íslensku bönkunum til að binda enda á óvissu um aðgerðir bresku ríkisstjórnarinnar gegn þeim. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Skuggafjármálaráðherra íhaldsmanna, Mark Hoban, hefur lýst yfir efasemdum um grundvöll aðgerða fjármálaráðuneytisins og sannsögli fjármálaráðherrans Alistair Darling. Hoban segir að fjármálaráðuneytinu hafi verið kunnugt um stöðu mála fyrir mörgum mánuðum síðan, þegar ýmsar breskar sveitastjórnar voru enn með fjármuni á reikningum íslenskra banka.

Darling hefur svarað því til að erfiðleikar í samningaviðræðum um stöðu íslensku bankanna hafi einmitt ýtt honum og hans fólki út í þær aðgerðir sem áttu sér stað.

Meðal þess sem Hoban kallar eftir í bréfi sínu til fjármálaráðuneytisins er almennileg samantekt á atburðarásinni allt frá því að yfirvöld gerðu sér grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af íslensku bönkunum fram til dagsins í dag.

Einnig vill hann að Alistair Darling útskýri ummæli sín þess efnis að íslensk stjórnvöld hygðust ekki standa við skuldbindingar sínar og útskrift á samtali hans við Árna Mathiesen, í ljósi þess að íslensk stjórnvöld ætluðu vissulega að standa við lagalegar skuldbindingar sínar.

Hoban krefst svara við því hvers vegna ákveðið var að beita hryðjuverkalöggjöf á Landsbankann og frysta eignir hans í Bretlandi, og hvort aðrar leiðir hafi verið kannaðar. Einnig þarf að svara því hvers vegna ekki var látið duga að frysta eignir Landsbankans heldur einnig skaða heildsöluviðskiptavini bankans.

Hoban vill einnig að greint sé frá samskiptum breska fjármálaeftirlitsins við Kaupthing Singer & Friedlander, og hvort eitthvað hafi verið gert til þess að aðstoða bankann áður en hann var tekinn í greiðslustöðvun. Einnig telur skuggaráðherrann að athuga beri hvort aðgerðir breskra stjórnvalda gegn Landsbankanum hafi hrint Kaupthing Singer & Friedlander og starfstöðum Landsbankans á Mön og Guernsey í greiðslustöðvun.