Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, varar önnur ríki við því að grafa undan regluverki og eftirlitskerfi bandaríska fjármálamarkaðarins og bendir máli sínu til stuðnings á hið „hörmulega“ fordæmi sem Bretar settu með slökun reglugerða og eftirlits. Frá þessu greinir Financial Times en Geithner lét þessi ummæli falla á ráðstefnu í Atlanta í Bandaríkjunum nýlega.

Geithner, sem áður var bankastjóri seðlabanka New York-fylkis, segir mikilvægt að herða kröfur um eiginfjárlágmörk banka og telur sömuleiðis að ná þurfi sátt um reglugerðir varðandi hinar og þessar afleiður. Eins og áður segir nefndi hann einnig slökun Breta á regluverki fjármálamarkaða þar í landi í því skyni að laða til sín fjármálafyrirtæki frá New York og Frankfurt sem víti til varnaðar enda hafi það átt stóran þátt í fjármálakreppu undanfarinna missera.

„Við stefnum að því að hemja áhættu á bandarískum fjármálamarkaði og viljum lágmarka möguleikana á því að áhættan verði færð úr landi til annarra markaða,“ sagði Geithner.