Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, segir að breytingar á húsnæðisbótakerfinu verði ekki framkvæmdar allar á sama tíma, þar sem það geti haft áhrif á húsaleigumarkaðinn. Á blaðamannafundi vegna kynningu á skýrslu starfshóps um málið kom fram í máli Lúðvíks Geirssonar, sem fór fyrir nefndinni, að engin formleg greining hefði verið gerð á áhrifum breytinganna á leigumarkað en sérfræðingar sem nefndin ræddi við hafi mælt með því að breytingar yrðu gerðar yfir lengri tíma.

Kostnaður við húsnæðisbótakerfið er talinn nema um 23 til 27,5 milljörðum króna, eftir því hvaða útfærsla á tekjutengingu er valin. Samkvæmt Guðbjarti er kostnaður við núverandi kerfi um 25 milljarðar, en sumir þættir þess eru þó tímabundnir eins og sérstök vaxtaniðurgreiðsla sem er greidd út á árunum 2011 og 2012. Vonir standa til að hægt verði að hefja breytingar á húsnæðisbótakerfinu á haustþinginu 2012.