Fyrirhugað er að breyta lögum um sölu fasteigna og skipa þannig við sölu hlutafélaga, þar sem megineign félags er fasteign eða fasteignir, fari eftir þeim lögum. Áform um lagabreytingu þess efnis var birt í Samráðsgátt stjórnvalda þess efnis.

Ný lög um fasteigna- og skipasölu tóku gildi árið 2015 en frá gildistöku þeirra hafa komið í ljós ýmis atriði sem þarfnast lagfæringa. Með lögunum var felldur úr gildi einkaréttur fasteignasala á að annast sölu fyrirtækja.

„Í tengslum við vinnu Stjórnarráðsins vegna aðgerða gegn peningaþvætti hefur komið til skoðunar hvort fella eigi aftur undir einkarétt fasteignasala sölu félaga þar sem megineign hins selda félags er fasteign eða fasteignir. Það myndi tryggja að slík félög yrðu aðeins seld af fasteignasölum sem eru tilkynningarskyldir skv. lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir í frummati atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um fyrirhugaða lagasetningu.

Tilefni lagabreytingarinnar er álit umboðsmanns Alþingis þar sem bent var á meinbugi á ákvæðinu. Hægt er að gefa umsögn um breytinguna inn á Samráðsgáttinni til 13. ágúst.