Hagstofa Íslands kynnti nýjan grunn vísitölu neysluverðs í dag en skipt er um grunn vísitölunnar í mars ár hvert og hefur það verið gert síðan 2002, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

Vegna breytinganna hækkar greiningardeild Kaupþings banka verðbólguspá sína, úr 1% í 1,1% hækkun á milli mánaða. Spilar þar aukið vægi eldneytis stóran sess.

Aðalbreytingarnar eru þær að vægi ferða og flutninga hækkar úr 13,1% upp í 16,9%. ?Þessi breyting ætti ekki að koma á óvart en met innflutningur er búinn að vera á bifreiðum að undanförnu og hafa útgjöld heimilanna til kaupa á eldsneyti aukist verulega," segir greiningardeild Kaupþings banka.

Vægi eldsneytis hækkar úr 4,6% í 6,3%. Vægi matvæla í vísitölunni lækkar úr 14,2% í 13,3% og vægi eigin húsnæðis lækkar úr 17,2% í 16,8%.

?Þetta kemur nokkuð á óvart í ljósi mikilla hækkana á fasteignaverði," segir greiningardeild Kaupþings banka sem bætir við: ?Hins vegar er ljóst að við innkomu bankanna á íbúðalánamarkaðinn lækkaði fjármagnskostnaður verulega og því hefur lækkun greiðslubyrgði líklega vegið þyngra."