*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Fólk 15. janúar 2019 17:05

Breytingar hjá Logos lögmannsþjónustu

Halldór Brynjar Halldórsson hefur bæst í eigendahóp Logos, sem jafnframt hefur bætt við sig sex nýjum fulltrúum.

Ritstjórn
Halldór Brynjar Halldórsson er nýr í eigendahópi Logos lögmannsþjónustu
Aðsend mynd

LOGOS lögmannsþjónusta hefur fengið nýjan eiganda í eigendahópinn og hefur bætt við sig sex nýjum löglærðum fulltrúum. Fulltrúarnir eru ráðnir til að sinna lögfræðilegum verkefnum hjá stofunni. LOGOS rekur sögu sína allt aftur til ársins 1907 en fyrirtækið er með skrifstofur bæði í Reykjavík og London.

Halldór Brynjar Halldórsson hefur gengið til liðs við eigendahóp LOGOS. Hann hefur starfað á stofunni frá árinu 2007 en útskrifaðist með ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2009. Halldór Brynjar lauk framhaldsnámi í evrópskum samkeppnisrétti frá Kings College í London árið 2017. Helstu starfssvið Halldórs Brynjars eru samkeppnisréttur, stjórnsýsluréttur, Evrópuréttur, kröfuréttur, málflutningur fyrir dómstólum og gjaldþrotaréttur. Unnusta Halldórs er Margrét Anna Einarsdóttir lögmaður og framkvæmdastjóri.

Gabriella Unnur Kristjánsdóttir hóf störf hjá LOGOS í ágúst 2018. Hún útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2015 og LL.M í upplýsinga- og nýsköpunartækni frá Edinborgarháskólanum í nóvember 2018. Hún starfaði áður hjá aðalskrifstofu EFTA í Brussel og hjá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Eiginmaður Gabriellu er Nalin Chaturvedi íþróttafræðingur.

Helga Hrönn Karlsdóttir hóf störf hjá LOGOS í lok árs 2018. Helga Hrönn útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands haustið 2018. Hún starfaði áður hjá sýslumanninum á Suðurlandi.

 

Kristján Jónsson hóf störf hjá LOGOS í október 2018. Kristján útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2014 og með framhaldsgráðu í lögfræði (MJur) frá Oxford háskóla með sérhæfingu í Evrópurétti og alþjóðlegum viðskiptarétti árið 2018. Áður starfaði Kristján í þrjú ár hjá Eftirlitsstofnun EFTA og einnig hjá EFTA-dómstólnum.

Steinlaug Högnadóttir hóf störf hjá LOGOS árið 2017. Hún útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2015 og hlaut EIPA vottun sem persónuverndarsérfræðingur árið 2016. Steinlaug er með fjölbreytta starfsreynslu bæði úr íslenskri stjórnsýslu og frá Belgíu, þar sem hún starfaði á sviði EES-réttar. Hún starfaði áður sem sérfræðingur í EES-málum hjá utanríkisráðuneytinu og sem starfsnemi hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Eiginmaður Steinlaugar er Karl Jóhann Unnarsson matreiðslumaður.

Vilhjálmur Herrera Þórisson hóf störf hjá LOGOS í júní árið 2018. Vilhjálmur útskrifaðist með ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017. Áður en hann hóf störf hjá LOGOS starfaði hann á samkeppnis- og ríkisaðstoðarsviði Eftirlitsstofnunar EFTA í Belgíu og þar áður hjá Samkeppniseftirlitinu. Unnusta Vilhjálms er Valgerður Þórsdóttir nemi í alþjóðaviðskiptum.

Ýr Sigurðardóttir hóf störf hjá LOGOS í maí 2018. Ýr útskrifaðist með MA gráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands í júní sl. Hún starfaði áður sem laganemi hjá LOGOS lögmannsþjónustu samhliða námi. Unnusti Ýrar er Davíð Örn Atlason nemi í félags- og fjölmiðlafræðum.