Efnahagur Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum, skuldir félagsins hafa lækkað um tugi milljarða og eiginfjárstaðan batnað sömuleiðis. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið starfað eftir aðgerðaráætlun sem hefur miðað að sparnaði og að bæta sjóðstreymi félagsins. Flest það sem lagt var upp með hefur gengið eftir. Heildarárangur frá upphafi Plansins svokallaða er um 5 milljarða umfram áætlun. Lækkun rekstrarkostnaðar, frestun f já r fes t inga r, hækkuð gjaldskrá og víkjandi lán frá eigendum er á meðal þess sem hefur skilað bættri stöðu.

Einnig má nefna eignasölu en lagt var upp með að selja eignir fyrir 10 milljarða króna á fimm árum. Á árinu komst hreyfing á eignasöluna en þá seldi félagið höfuðstöðvar félagsins og Perluna auk þess sem beðið er eftir samþykki eftirlitsaðila vegna sölu á hlut félagsins í HS veitum. Frá árslokum 2009 hafa skuldir félagsins lækkað úr rúmlega 240 milljörðum í 202 milljarða. Þess má geta að skuldir félagsins stórjukust árin á undan en þær námu um 70 milljörðum árið 2006, 103 milljörðum árið 2007 og 211 milljörðum árið 2008.

Á þessum árum hefur eigið fé félagsins aukist og nemur nú um 81 milljarði króna en var um 41 milljarður árið 2009. Árið 2009 var eiginfjárhlutfall Orkuveitunnar komið niður í 14,4% en hafði verið 49,5% árið 2006. Í lok síðasta árs var eiginfjárhlutfall

félagsins komið í 28,6%. EBITDA hagnaður félagsins hefur einnig aukist ár frá ári eða úr tæplega 12 milljörðum 2008 í rúma 26 milljarða króna á síðasta ári. Saman gerir þessi þróun á skuldum og EBITDA hagnaði félagsins það að verkum að skuldaþekja félagsins (skuldir/EBITDA) hefur dregist verulega saman. Frá því að vera komin í 18 árið 2009 er hlutfallið þar á milli um 7,1. Heyra má á stjórnendum félagsins að stefnt er að því að lækka skuldir félagsins enn frekar eins og getið er í Planinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .