Forstjóri stærsta banka Grikklands segir að það væri algert „brjálæði“ að ná ekki samkomulagi á neyðarfundi vegna skuldavanda þjóðarinnar á mánudag.

Gríski forsætisráðherrann Alexis Tsipras mun funda með leiðtogum hinna 18 Evrulandanna í Brussel og er óhætt að segja að mikið sé í húfi. Grikkland þarf að fá neyðarlán til að geta staðist skuldbindingar sínar á 1,6 milljarða evra láni til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á mánudag.

Louka Katseli, forstjóri Landsbanka Grikklands, National Bank of Greece, segir í samtali við BBC að bankarnir þar væru ekki í hættu á að tæmast af peningum alveg strax. Hún sagði hins vegar að ástandið væri alvarlegt og yrði enn alvarlegra ef ekki verður samið á mánudag.

Þessi ummæli koma í kjölfar þess að Tsipras stakk upp á samkomulagi í símtali við Þýskalandskanslarann Angelu Merkel, Francois Hollande Frakklandsforseta og Jean-Claude Juncker forseta framkvæmdastjórnar ESB.

Tsipras vill ekki gera samkomulag sem eykur fátækt og ójöfnuð í Grikklandi, t.d. með skerðingu ellilífeyris, og því er Katseli sammála. Þar að auki segir hún að kostnaður Evrópusambandsins við brotthvarf Grikklands yrði gríðarlegur.

„Ef markaðirnir ákveða að það er ekki óafturkallanleg ákvörðun að ganga í Evrusvæðið og að hægt sé að lýsa stjórnvöld ákveðins ríkis gjaldþrota, þá er það fyrsta sem gerist að markaðirnir gera áhlaup á næstveikasta hagkerfið á Evrusvæðinu,“ sagði Katseli.