Viðskiptaráð Íslands telur fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára, sem nú bíður afgreiðslu á Alþingi, vera brothætta og þensluhvetjandi. Þetta kemur fram í nýrri umsögn ráðsins um stefnuna.

Að mati ráðsins er stefnan brothætt að því leyti að hún byggir á sviðsmynd sem gerir ráð fyrir samfelldum hagvexti á Íslandi næstu fimm árin án þess að taka mið af mögulegum skakkaföllum og áhættuþáttum á borð við áframhaldandi styrkingu krónunnar.

Þá er stefnan þensluhvetjandi þar sem hún felur í sér raunverulega útgjaldaaukningu hins opinbera.

Eitt markmið stefnunnar er að útgjöldin fari ekki yfir 41,5% af landsframleiðslu, en gert er ráð fyrir aukningu landsframleiðslu á tímabilinu þrátt fyrir að viðmiðið sé undir útgjaldameðaltali síðastliðinna ára, sem jafngildir aukningu í útgjöldum.