Brú Venture Capital hf. hefur selt um 38% hlut sinn í CCP hf til NP ehf. sem er í eigu Novator ehf., að því er fram kemur í tilkynningu. Þar segir að salan sé í samræmi við stefnu Brúar að selja eignir úr eldra eignarsafni félagsins sem náð hafa ákveðnum vexti og þroska. Með sölunni innleysir Brú umtalsverðan söluhagnað.

Leikjafyrirtækið CCP hf. framleiðir og selur fjölþáttökuleikinn EVE Online sem hlotið hefur lof leikjaunnenda og gagnrýnenda um allan heim.  Á síðustu misserum hefur tekist að tryggja rekstrarstöðu félagsins bæði á kostnaðarhliðinni, en einkum með mikilli fjölgun áskrifenda, sem nú eru yfir 100 þúsund. Félagið vinnur að landvinningum á heimsvísu og sér í lagi í Kína. "Við óskum nýjum eigendum til hamingju með kaupin, enda teljum við CCP eiga mikla möguleika og bjarta framtíð," sagði Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Brúar.

Novator ehf. er íslensk starfsstöð alþjóðlega fjárfestingarfélagsins Novator sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Fjárfestingin er í samræmi við þá stefnu Novator að fjárfesta í áhugaverðum verkefnum, einkum á sviði tækni og fjarskipta, með mikla vaxtarmöguleika og alþjóðlega skírskotun. "CCP hf. er eitt áhugaverðasta félag sinnar tegundar í Evrópu, sem byggir á traustu tekjuflæði og horfir Novator björtum augum til vaxtar félagsins og þróunar í framtíðinni," segir í tilkynningunni.

Brú Venture Capital hf. er fjárfestingarfélag sem fjárfestir í óskráðum og hraðvaxandi fyrirtækjum. Félagið er stofnað í árslok 2003 af Straumi hf til að sjá um óskráðar eignir þess, en er nú í eigu nokkurra lífeyrissjóða ásamt Straumi-Burðarási Fjárfestingarbanka hf.  Brú stýrir þremur eignasöfnum: BrúFramtak sem fjárfestir á klakstigi, eignasafn BVC (Brú I) en CCP hf er selt úr því safni, og nýjum sjóði Brú II, sem fjárfestir í þroskaðri vaxtarfyrirtækjum. Eignasöfn Brúar telja félög á Íslandi, Bandaríkjunum og í löndum Evrópusambandsins.