Mennirnir á bak við Vínstúkunna Tíu Sopa og RVK Brewing Co. stefna að opnun nýs staðar við Snorrabraut í lok mánaðar þar sem að Roadhouse var áður til húsa. Þetta segir Bragi Skaftason, einn eiganda Vínstúkunnar, í samtali við Viðskiptablaðið. Mun nýi staðurinn bjóða upp á Amerískan BBQ mat og handverksbjór frá RVK Brewing Co.

Hugmyndin var búin að vera töluverðan tíma í bígerð. „Bruggstofan sprettur upp úr því að við á Vínstúkunni, þó aðallega Ragnar Eiríksson, kokkurinn okkar, vorum búnir að vera að þróa BBQ konsept í langan tíma og fylgjast með öllum þeim straumum og stefnum sem eru í BBQ heiminum í Bandaríkjunum og víðar undanfarin ár," segir Bragi.

RVK Brewing Co. fengu sömu hugmynd á sama tíma og lá samstarfið í augum uppi „Það vildi bara svo til að eigendur RVK Brewing bjórframleiðslunnar virtust hafa fengið sömu hugmynd á sama tíma, þetta eru góðir vinir okkar, og núna hálfu áru seinna er barnið að fæðast."