Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, mun taka við formennsku í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur á aðalfundi, sem haldinn verður 18. apríl.

Reykjavíkurborg, sem á um 94% hlut í OR kýs fimm stjórnarmenn af sex og var kosið til stjórnarinnar í borgarstjórn á þriðjudaginn. Haraldur Flosi Tryggvason, sem gegnt hefur formennsku allt frá árinu 2010, lætur nú af því starfi.

Brynhildur Davíðsdóttir, núverandi varaformaður, var kjörin til formennsku og ný inn í stjórnina kemur Sigríður Rut Júlíusdóttir, hæstaréttarlögmaður. Aðrir fulltrúar Reykjavíkurborgar verða hinir sömu og fyrr; Gylfi Magnússon, Áslaug M. Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon.

Brynhildur er doktor í umhverfis- og orkufræðum frá Boston University. Hún hefur kennt við Háskóla Íslands frá 2006 og verið prófessor frá 2013. Hún hefur setið í stjórn OR allt frá 2010 og tekið þátt í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á rekstri og skipulagi fyrirtækisins síðan þá.