*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 17. október 2014 11:47

Brynjar: Vil ekki að samstarfið strandi á leiðréttingunni

Brynjar Níelsson segir að sér hafi aldrei hugnast hugmyndin um skuldaleiðréttingu heimilanna og hún sé hálfgalin.

Ritstjórn
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er í ítarlegu viðtali í helgarblaði DV. Þar greinir hann frá því að sér hafi aldrei hugnast hugmyndir um skuldaleiðréttingu heimilanna og honum finnist hugmyndin ennþá hálfgalin.

Segir Brynjar að hann hafi verið þeirrar skoðunar að hugmyndin gæti í eðli sínu aldrei orðið sanngjörn og gæti boðað til ófriðar þar sem sumir í erfiðri stöðu fengju ekki neitt. „Mér fannst þetta ekki vera fara skynsamlega með peninga. Hundrað og tíu prósenta leiðina var búið að fara og kostaði ríkissjóð 45 milljarða. Fólk veit kannski ekki af því en það var ansi mikil leiðrétting í sjálfu sér,“ segir Brynjar.

Brynjar segist þó ekki vilja að stjórnarsamstarfið strandi á málinu þótt honum finnist að unnt sé að nýta peningana í önnur og mikilvægari verkefni. „Ég vil alls ekki tala illa um neinn og allra síst Framsóknarflokkinn sem nú er í mikilli vörn, en ég er ekki í þeim flokki af ástæðu og vildi gjarnan að þau hefðu aðra pólitík að mörgu leyti,“ segir Brynjar í viðtalinu.