Brynjólfur Bjarnason
Brynjólfur Bjarnason
© BIG (VB MYND/BIG)

Brynjólfur Bjarnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands og tekur hann við af Finnboga Jónssyni, sem hætti í janúar. Brynjólfur var áður forstjóri Skipta, móðurfélags Símans, og tók svo við forstjórastólnum hjá Icelandic Group eftir að Finnbogi Baldvinsson hætti hjá félaginu í febrúar í fyrra. Brynjólfur stóð sjálfur upp úr forstjórastólnum í september í fyrra.

Icelandic Group er í eigu Framtakssjóðsins.

Fram kemur í tilkynningu að Brynjólfur hafi viðamikla reynslu úr íslensku atvinnulífi. Hann var auk þess sem áður var talið fram forstjóri Símans og Skipta á árunum 2002- 2010, forstjóri Granda hf. 1984-2002 og framkvæmdastjóri Almenna Bókafélagsins frá 1976-1983. Brynjólfur hefur auk þess setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og samtaka. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk MBA prófi frá University of Minnesota árið 1973.