Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að það sé brýnt að gera úrbætur á Laugardalsvelli og fara í uppbyggingu. Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá er búið að ljúka kostnaðargreiningu og frumhönnun vegna nýs vallar.

„Völlurinn er nú þegar á undanþágu varðandi ýmsa aðstöðu í kringum stórleiki," segir Guðni. „Hann er náttúrlega orðinn 60 ára gamall þannig að það er kominn tími á hann ef svo má að orði komast."

Guðni segir að nú liggi svolítið á að taka ákvörðun því frá og með árinu 2019 muni leikir í undankeppni Evrópu- og heimsmeistaramóts fara fram í nóvember og mars.

„Miðað við veðráttuna hér þá getur brugðið til beggja vona og alls ekki víst að við getum spilað á þessum tíma," segir hann. „Ein sviðsmyndin er sú að við verðum með varavöll annars staðar í Evrópu en það er eitthvað sem engum hugnast. Við viljum auðvitað spila okkar leiki hér heima og munum gera allt til þess að svo verði."

Guðni segir að málið hafi verið kynnt fyrir Knattspyrnusambandi Evrópu (UEFA). Sambandið verði til ráðgjafar og ekki útilokað að það komi að verkefninu með styrkveitingum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .