Afkoma af tryggingastarfsemi Sjóvá batnaði umtalsvert á síðasta ári og var samsett hlutfall tryggingasamstæðunnar ríflega 104%  en var 115%  árið áður. Tjóna- og rekstrarkostnaður var þannig  4% hærri en iðgjöld á árinu 2007 en var  15% hærri árið 2006. Árið 2005 var samsett hlutfall félagsins 122% svo umtalsverð umskipti hafa orðið á tryggingastarfseminni á síðustu tveimur árum. Iðgjöld félagsins jukust um 11%  árið 2007.

Að sögn Þórs Sigfússonar, forstjóra Sjóvá, drógust tekjur af fjárfestingarstarfsemi saman á árinu miðað við árið áður og var það í takt við aðstæður á fjármagnsmörkuðum. Þór taldi afkomuna þó vel ásættanlega. Hagnaður samstæðu Sjóvár árið 2007 nam 4 milljörðum króna samanborið við 11 milljarða árið áður.

"Kannski er eini sjáanlegi kosturinn við erfiðar aðstæður á fjármálamarkaði að meiri áhugi verður fyrir góðum rekstri fyrirtækja, rekstri og nýjungum sem geta skilað ábata þegar til lengdar lætur.  Við byrjuðum að bæta tryggingareksturinn árið 2005 og erum að uppskera bæði með betri afkomu í tryggingastarfsemi og ýmsum nýjungum," sagði Þór um reksturinn.