Matfyrirtækið Moody's telur að lágt olíuverð muni ekki ná að ýta upp hagvexti í heimshagkerfinu á næstu tveimur árum. BBC News greinir frá þessu.

Þar kemur fram að Moody's muni af þeim sökum ekki auka við hagvaxtarspá sína fyrir G20-ríkin á næstu tveimur árum þar sem að öll jákvæð áhrif lægra olíuverðs verði jöfnuð út af slæmu ástandi á evrusvæðinu og hægum vexti í Kína, Japan og Rússlandi.

Fyrirtækið telur því enn að hagvöxtur innan hagkerfis G20-ríkjanna muni nema tæpum 3% árin 2015 og 2016. Það er í samræmi við síðustu spár fyrirtækisins.

Spáin er miðuð við að olíutunnan kosti að meðaltali 55 Bandaríkjadali á árinu 2015 og hækki upp í 65 dali á árinu 2016. Síðasta sumar kostaði tunnan nær tvöfalt meira, eða í kringum 115 dali.