Á næsta ár hyggst Icelandair taka nýjar Boeing 737 MAX þotur í notkun og er þá gert ráð fyrir að flugáætlun Icelandair, dótturfélags Icelandair Group, fyrir árið 2018 verði um 11% umfangsmeiri en á þessu ári.

Áætlað er að farþegar verði um 4,5 milljónir á árinu 2018 og muni fjölga um 400 þúsund frá yfirstandandi ári. Flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða, Cleveland og Dallas í Bandaríkjunum og Dublin á Írlandi, auk Berlínar sem bætist við leiðakerfið nú í nóvember. Þá verður ferðum fjölgað til fjölmargra borga í Norður-Ameríku og Evrópu.

Þrjár nýjar vélar snemma á næsta ári

Snemma á næsta ári mun Icelandair taka í notkun þrjár nýjar 160 sæta Boeing 737 MAX 8 flugvélar og verða alls 33 flugvélar nýttar til farþegaflugsins næsta sumar, 26 af Boeing 757 gerð og fjórar af Boeing 767-300 gerð auk nýju vélanna.

Þessi vöxtur mun hafa í för með sér áframhaldandi eflingu ferðaþjónustunnar á Íslandi og þar með efla vöxt og viðgang annarrar starfsemi innan Icelandair Group segir í fréttatilkynningu.

Meiri aukning til Ameríku en Evrópu

Áætlað er að framboðnum sætiskílómetrum fjölgi um 11% milli ára, en flugferðum í millilandaflugi fjölgar um 10%. Munurinn skýrist af hlutfallslega meiri aukningu í Ameríkuflugi en Evrópuflugi.

Icelandair kynnti nýverið nýjan valkost, Economy Light, sem gerir viðskiptavinum kleift að ferðast á lægra verði án þess að innritaður farangur sé innifalinn í verðinu. Þeir sem bóka Economy Light munu njóta sömu þjónustu um borð og aðrir farþegar og 10 kg handfarangur er innifalinn.

Fá alls 16 nýjar vélar

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group segir góðan vöxt hafa verið í leiðarkerfi félagsins undanfarin ár. „Við leggjum áfram áherslu á arðbæran innri vöxt í millilandaflugi félagsins á næsta ári,“ segir Björgólfur.

„Með nýjum valkosti, Economy Light, aukum við breiddina í þjónustuframboði okkar og komum til móts við mismunandi óskir á markaðnum. Á næstu 4 árum munum við fá alls 16 Boeing MAX flugvélar afhentar. Með tilkomu þeirra opnast fjölmargir möguleikar til að halda áfram að þróa nýja markaði og fjölga tengimöguleikum farþega okkar enn frekar.“