Erlendir gestir EVE Fanfest hátíðar og ráðstefnu CCP, sem fram fer í Hörpu dagana 1.-3. maí, eru byrjaðir að streyma til landsins. Alls er búist við um 1.500 erlendum gestum á hátíðina að þessu sinni, þar af rúmlega 90 blaðamönnum sem hafa aldrei verið fleiri. Alls er búist við að um 3.000 manns sæki hátíðina um helgina. EVE Fanfest fagnar tíu ára afmæli sínu í ár og er dagskráin einkar vegleg að því tilefni.

Spilarar tölvuleiksins EVE Online eru stærsti hluti hátíðargesta EVE Fanfest, en áskrifendur leiksins í dag ERU rúmlega 500 þúsund. Þeir spilarar sem ekki komast til Íslands geta fylgst með dagskrá hátíðarinnar í gegnum beina útsendingu EVE TV og Twitchtv.com frá Hörpu gegnum netið, en yfir 280.000 manns um heim horfðu á útsendinguna í fyrra.

EVE Fanfest þjónar margvíslegum tilgangi fyrir CCP og samfélag EVE Online spilara. Á hátíðinni koma spilarar leiksins allstaðar að úr heiminum, sem sumir hverjir hafa aldrei hist í raunheimum, saman í Reykjavík, fagna og ráða ráðum sínum. Svarnir óvinir í leiknum fallast í faðma í Hörpu og á börum borgarinnar og hið lýðræðislega kjörna CSM ráð spilara leiksins fundar á meðan á hátíðinni stendur. Samstarfsaðilar CCP, blaðamenn og starfsmenn úr tölvuleikja- og afþreyingariðnaðarins koma jafnframt á EVE Fanfest, m.a. til fræðast fyrstir allra um framtíðaráætlanir fyrirtækisins sem venjan er að svipta hulunni af á Fanfest.

Dagskrá hátíðarinnar er gírarlega fjölbreytt og samstendur af yfir 95 dagskrárliðum. Má þar nefna fyrirlestra og pallborðsumræður um; gjaldmiðilsmál, vísindi og tækniþróun, landafræði svarthol og hættuleg sólkerfi í EVE heiminum, sagnfræði og goðsagnir EVE heimsins, teiknimyndasögur úr EVE himinum, list og grafík í EVE Online, DUST 514 og EVE: Valkyrie, hljóð, tónlist og tilfinningar í EVE Online, leykjahönnun hjá CCP, þrívídar-sýndarveruleiki (Virtual Reality) og framtíðarmöguleika hans.

Einnig eru í boði umræðufundir sem tengjast margvíslegum efnisþáttum EVE heimsins s.s. efnahagskerfi hans, lýðræði og þátttöku spilara, þjálfun og reynslu nýrra spilara, fyrirtæki og fylkingar í EVE Online og DUST 514, iðnaðarframleiðsla í leikjunum, mótun DUST 514,  nýjustu viðbæturnar sem CCP hefur gefið út fyrir EVE Online og framtíðarsýn leiksins fyrir næsta áratug. Stórir bardagar sem gerst hafa í leiknum undanfarið ár verða ræddir spjaldanna á milli, meðal annars B-R5RB sem vakti heimsathygli og komst í fréttir um allan hinn vestræna heim.

Á EVE Fanfest kynnir CCP nýjungar fyrir leiki sína og það sem framundan er hjá fyrirtækinu. Það er m.a. gert á lykilfyrirlestrunum; EVE: Valkyrie Keynote (1. maí), DUST 514 Keynote og EVE Online Keynote (2. maí) og CCP Presents Keynote (2. maí) sem fara fram fyrir framan 1.500 manns í Eldborg.

Sérstök kynning verður á EVE Valkyrie, nýjum leik sem CCP er með í þróun og mun koma út fyrir þrívíddarbúnað Oculus Rift á PC og Morpheus fyrir PlayStation 4 leikjavélar SONY. Gestum hátíðarinnar verður gefin kostur á að prufa nýja prufuútgáfu af leiknum, fyrstir allra í heiminum, á stóru sýningarsvæði á 1. hæð Hörpu föstudag og laugardag. Meðal annara viðburða er EVE of Destruction bardagi Gunnars Nelson við leikjahönnuði EVE Online og gesti sem fara mun fram á föstudaginn.