Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins vænta þess að verðbólgan eftir ár verði 3,7%. Er það aukning frá því í maí þegar verðbólguvæntingar fyrirtækjastjórnenda til tólf mánaða mældust 3,2%.

Þá búast fyrirtækjastjórnendur við því að verðbólgan eftir tvö ár verði komin í 4,6% og aukist þar með frá núverandi verðbólgu sem er 3,9% og einnig frá því sem stjórnendur vænta að verðbólgan verði eftir tólf mánuði. Kemur þetta fram í könnun sem Capacent gerði fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann í september síðastliðnum. Greining Íslandsbanka segir frá niðurstöðum könnunarinnar í dag.

Verðbólguvæntingarnar eru talsvert yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans, hvort sem um er að ræða verðbólguvæntingar fyrirtækjastjórnenda, heimilanna eða fjárfesta. Einnig eru spár greiningaraðilam, þar á meðal Greiningar Íslandsbanka, þær að verðbólgan muni haldast talsvert há næstu misseri.  Hefur Seðlabankinn eðlilega haft af þessu nokkrar áhyggjur, en miklar og þrálátar verðbólguvæntingar gera honum um margt erfiðara fyrir í peningastjórnuninni.