Framtakssjóðurinn er búinn að selja eignir sem tilheyrðu eignarhaldsfélaginu Vestia fyrir 45 milljarða króna það sem af er ári. Heildarvirði fyrirtækja undir Vestia-hattinum var um 66 milljarðar króna og nemur verðmæti þeirra fyrirtækja og hluta af óseldum einingum 21 milljarði króna, samkvæmt upplýsingum frá Framtakssjóðnum.

Framtakssjóðurinn og Landsbankinn sömdu um kaup á eignarhaldsfélaginu Vestia í ágúst í fyrra og gengu kaupin í gegn í desember sama ár. Landsbankinn hafði tekið fyrirtækin yfir á mismunandi tímum eftir bankahrunið eftir að eigendur þeirra höfðu lent í fjárhagsörðugleikum.

Á meðal fyrri umsvifamikilla eigenda fyrirtækja undir Vestia-hattinum voru Björgólfur Guðmundsson, Jón Ásgeir Jóhannseson, Hannes Smárason og tengdir aðilar. Fyrirtækin höfðu sömuleiðis komið í misgóðu ástandi undan hruninu, sum hver voru í rúst eins og efnahagsreikningur Húsasmiðjunnar bar vitni um.

Framtakssjóðurinn greiddi 15,5 milljarða króna fyrir Vestia-pakkann og innihélt hann á þeim tíma Icelandic Group, Teymi, Húsasmiðjuna og Plastprent. Húsasmiðjan hefur nú verið seld og stórar sneiðar innan úr Icelandic Group. Þá hefur Teymi verið skipt upp í 79% hlut í Vodafone og jafnstóran hlut í Skýrr.

framtakssjóður kaupir vestia
framtakssjóður kaupir vestia
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Eignir sem tilheyrðu Vestia við kaup Framtakssjóðsins á félaginu. Félögin höfðu áður verið tekin yfir af Landsbankanum.