Marel birtir uppgjör sitt 7. nóvember nk. og er fastlega búist við að þá verði gefin út yfirlýsing varðandi hugsanleg kaup á Stork Food Systems í Hollandi. Mikill titringur hefur verið um Stork NV samsteypuna og var samþykk á hluthafafundi þann 12. nóvember að brjóta félagið upp.

Í tilkynningu með uppgjöri Stork NV á miðvikudag vegna þriðja ársfjórðungs kemur fram að stjórnin stefni að því að svara samþykkt hluthafafundarins um miðjan nóvember. Stjórnin hafði áður lýst því yfir að hún væri ekki bundin af samþykkt hluthafafundarins um að selja þrjár af fjórum einingum frá félaginu, en sú afstaða stjórnar er þó talin brot á reglum um stjórn félagsins.

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marels og framkvæmdastjóri hjá Eyri Invest, vildi þó ekkert láta hafa eftir sér um hugsanleg kaup á félaginu. "Við getum ekkert sagt á þessu stigi umfram það sem áður var búið að tilkynna Kauphöllinni."

Undir væntingum

Hollenska fyrirtækjasamsteypan STORK NV, sem Marel á 8% hlut í í gegnum eignarhaldsfélagið LME ehf., skilaði nokkuð betri afkomutölum á þriðja ársfjórðungi þessa árs en í fyrra. Sú rekstarraeining sem Marel er einkum talin ásælast, Stork Food Systems, er þó síst að standa undir væntingum að því er Sjoerd Vollenbregt, forstjóri Stork, upplýsir vegna birtingar afkomu á þriðja ársfjórðungi. Þó er búist við betri árangri deildarinnar á fjórða ársfjórðungi. Hins vegar er búist við að afkoma Stork samsteypunnar í heild á árinu verði 5 til 15% lakari en á metárinu í fyrra. Er það fyrir utan hugsanleg neikvæð áhrif vegna vandræða við smíði Airbus A380 risaþotunnar.

Rekstrarhagnaður Stork NV samsteypunnar eftir skatta á þriðja ársfjórðungi eða EBIT var 27 milljónir evra á móti 25 milljónum evra á sama tíma í fyrra (rúmir 2,3 milljarðar 2006 á móti 2,1 milljarði króna 2005). Nettóhagnaður nú er 25 milljónir evra á móti 18 milljónum í fyrra, en það skýrist að mestu af lægri skattabyrði.

Velta samsteypunnar á þriðja ársfjórðungi dróst hins vegar saman um 1 milljón evra á milli ára. Var hún 458 milljónir evra á móti 459 milljónum í fyrra. Nettóvelta fyrstu þrjá ársfjórðungana nam samtals tæpum 1,5 milljörðum evra sem er 11% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Stork Food Systems

Velta Stork Food Systems á þriðja ársfjórðungi var samkvæmt reikningum félagsins 75,2 milljónir evra (um 6,4 milljarðar króna) á móti 60,6 milljónum evra á sama tíma í fyrra. Heildarveltan frá áramótum var 231,1 milljón evra eða um 19,8 milljarðar króna á móti 171,5 milljóna evra veltu sömu mánuði 2005 eða sem svarar um 14,7 milljörðum króna. Hagnaður fyrir utan skatta lækkaði um 1,2 milljónir evra á milli ára. Á þriðja ársfjórðungi var EBIT 3,5 milljónir evra eða sem nemur um 300 milljónum króna, en var 4,7 milljónir evra eða 403 milljónir króna á sama tíma 2005.

Sjoerd Vollenbregt, forstjóri Stork, segir að þriðji ársfjórðungur hafi einkennst af óróleika og óvissu fyrir hluthafa fyrirtækisins. Eigi að síður sé starfsemin á eðlilegu róli. Hann segir að þrjár einingar samstæðunnar, þ.e. Stork Technical Services, Stork Aerospace Service og Stork Prints hafi verið að standa sig vel. Þá hafi Stork Food Systems staðið sig ágætlega hvað þjónustu við alifuglamarkaðinn áhrærir, en sú deild hafi þó ekki verið að standa sig eins vel hvað varðar matvæla- og mjólkuriðnaðinn almennt.

Vandræði vegna smíði Airbus A380 risaþotunnar sem og seinkun vegna smíði NH90 þyrlunnar hefur þegar skila sér að hluta inn í rekstur Stork Aerospace Service. Segir forstjórinn þó erfitt að meta hver áhrifin verði af frekari seinkunum. Það eigi að koma betur í ljós á fjórða ársfjórðungi.

Þá nefndi hann að skilað hafi verið um 200 milljónum evra til hluthafa m.a. með endurkaupum félagsins á hlutum í félaginu. Frá 27. júlí til 17. október keypti félagið til baka 1.769.246 hluti í félaginu fyrir að meðaltali 39,56 evrur á hlut.