Vaxtaákvörðunardagur er í dag hjá evrópska seðlabankanum. Búist er við að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 0,75%. Fréttastofa Reuters segir seðlabankann tilbúinn til að kaupa skuldabréf evruríkja, þar á meðal Spánar og Ítalíu þegar og ef ósk frá stjórnvöldum þar berst. Stjórnvöld á Spáni hafa enn sem komið er ekki óskað eftir aðstoð frá bankanum.

Þá er á það bent í umfjöllun Reuters-fréttastofunnar að miðað við fremur dökka hagspá sem evrópski seðlabankinn kynnti í gær og bendir til að enn muni harðna í ári á evrusvæðinu og lengra líða þar til efnahagslífið þar nái sér á réttan kjöl. Af þeim sökum megi allt eins reikna með að seðlabankinn lækki stýrivexti þegar fram líða stundir. Þá hermir Reuters, að áður en gripið verði til lækkunar stýrivaxta vilji stjórnendur evrópska seðlabankans tryggja að lægri stýrivextir muni skila sér til íbúa evrusvæðisins, bæði fyrirtækja og heimila.

Samkvæmt stýrivaxtaspá Reuteres eru 80% líkur á því að evrópski seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum í 0,75% í dag en lækki þá um 0,25% á næstu mánuðum.