Ragnar Benediktsson tók nýlega þá ákvörðun að flytjast til Akureyrar. Það gerði hann til að elta draumastarfið en hann mun taka við sjóðstjórastöðu hjá ÍV sjóðum í haust. Þar mun hann stýra erlendum og innlendum hlutabréfasjóðum hjá fyrirtækinu og er að eigin sögn fullur tilhlökkunar.

„Ég starfaði hjá IFS greiningu og var þá aðallega í því að greina rekstrarfélög. Síðan bauðst mér þetta tækifæri og maður segir ekki nei við því. Maður vill auðvitað vaxa í starfi og svona tækifæri koma ekki á hverjum degi.“

Ragnar er með B.Sc. gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Að námi loknu hélt hann til Shenzhen í Kína en hann hlaut fullan námsstyrk til tveggja ára náms. Hann lauk gráðu í fjármálahagfræði frá Peking háskóla.

„Þetta var mjög góð lífsreynsla, námið gekk vel og auk þess kynntist ég ævivinum,“ segir hann. Ragnar hefur einnig reynslu á alþjóðlegum vettvangi en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu PT Trimegah Sekuritas í Jakarta í Indónesíu sem greinandi í sex mánuði og um hríð í Kína.

„Það er meðal annars vegna þess að ég var að vinna að ritgerðinni minni sem fjallaði um hlutabréfamarkaði í nýmarkaðsríkjum. Síðan vann ég líka í Hong Kong meðfram skóla.“

Hann segir mikinn mun vera á vinnuumhverfinu þar og hér heima. „Á þessum stöðum þá er maður að vinna að lágmarki tólf tíma á dag og ert ekki að fara í neitt sex vikna sumarfrí. Það er gífurleg samkeppni. Auðvitað er líka samkeppni hérlendis en það er mun meira jafnvægi milli vinnu og einkalífs,“ segir Ragnar.

„Það var auðvitað mikil áskorun að vinna í svona framandi umhverfi og maður náði ekki tungumálinu mjög fljótt en auðvitað fór vinnan öll fram á ensku.“

Jóga besta líkamsræktin

Ragnar segir það hafa verið mikil viðbrigði að flytja til Akureyrar.

„Þegar ég flutti hingað þá byrjaði ég að mæta í ræktina og prófaði aðeins golf líka. En annars er ég mest í jóga. Það er í rauninni eina líkamsræktin sem ég nenni,“ segir hann.

Ragnar segist einnig hafa áhuga á ferðalögum, bæði innanlands og utan og einnig að dreypa á góðu rauðvíni í góðra vina hópi. „En annars hef ég náttúrulega bara brennandi áhuga á því sem ég starfa við. Ég hef alveg bullandi áhuga á fjármálum.“