Laxveiðimaðurinn og blaðamaðurinn Gunnar Bender segir í samtali um laxveiðina í sumar í Viðskiptablaðinu í dag að það góða við kreppuna sé að menn eru hættir ruglinu sem hefur verið í gangi á undanförnum árum.

„Þetta var hreint bull, menn komu með glænýjar vöðlur og rándýrar stangir í veiðina og hentu því svo í tunnuna þegar þeir fóru. Þetta voru Íslendingarnir sem boðið var í veiði af fyrirtækjum. Svo komust venjulegir veiðimenn ekki að á meðan þarna var lið sem kunni ekki einu sinni að veiða og vissi varla hvað veiðistöng var. Þá voru sumir líka að fljúga á þyrlum í veiðina og jafnvel á milli veiðistaða af því að menn nenntu ekki að labba eins og í Víðidalsánni. Nú láta menn ekki sjá sig á þyrlum og ég held að það hafi ekkert verið um slíkt í sumar. Sem betur fer er þetta bull alveg búið," segir Gunnar.