Gunnar Bragi  Sveinsson, utanríkisráðherra segir að nýr tollasamningur við Evrópusambandið verði ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en gengið hafi verið frá nýjum búvörusamningi. Þetta kemur fram í Bændablaðinu í dag.

„Eftir fund minn með formanni Bændasamtakanna og samráð við landbúnaðarráðherra tók ég þá afstöðu að það sé rétt að samningurinn verði ekki lagður fyrir Alþingi fyrr en fyrir liggur hver verði lending í nýjum búvörusamningum. Það liggur og fyrir að ferlið ESB-megin mun taka langan tíma svo það er engin pressa á okkur í þessu máli.“ segir Gunnar.

Nýr tollasamningur veitir íslenskum landbúnaði sóknartækifæri

Gunnar segir að tollasamningurinn veiti íslenskum landbúnaði ákveðin tækifæri til að þreifa fyrir sér á markaði í Evrópu með nýjar vörur. Á sama tíma svari samningurinn brýnni þörf fyrir auknar innflutningsheimildir til ESB á skyri. Hann telur einnig að umfang innflutnings til Íslands sé þannig að innlendur landbúnaður eigi ekki að óttast og auk þess sé gert fyrir ríflegum aðlögunartíma.