Byggðastofnun tapaði um 2,6 milljörðum króna í fyrra og Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, boðar breytingar á rekstri stofnunarinnar. Í samtali við Morgunblaðið segir hún nefnd um endurskoðun á lánveitingum stofnunarinnar munu skila af sér í innan tveggja mánaða en að sögn Morgunblaðsins má rekja stærstan hluta taps Byggðastofnunar  til afskrifta á lánum til fimm sparisjóða, 1200 milljónir, auk þess sem afskrifa þurfti 700 milljónir í kjölfar þess að rækjukvóti var gefinn frjáls.

Að sögn Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra Byggðastofnunar, er afskriftum vegna bankahrunsins nú að mestu lokið hjá stofnuninni. Eins og fram kom á vb.is 25. janúar sl. þarf stofnunin um 3,5 milljarða eiginfjárframlag frá ríkinu en í fyrra fékk hún 3,6 milljarða. „Ef Byggðastofnun á að halda áfram lánastarfsemi í núverandi mynd þarf að koma til aukið framlag frá ríkissjóði,“ segir Aðalsteinn en 2,5 milljarða vantar upp á til þess að stofnunin nái lögbundu eiginfjárlágmarki.