Byr sparisjóður hefur tekið að sér að annast innlenda greiðslumiðlun fyrir aðra sparisjóði en Byr hefur um alllangan tíma séð sjálfur um eigin innlenda greiðslumiðlun í gegnum Seðlabankann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sparisjóðnum en Byr undanfarið unnið með Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands að uppbyggingu erlendrar greiðslumiðlunar fyrir Byr og aðra sparisjóði í landinu.

Í tilkynningunni kemur fram að sparisjóðabankinn annaðist áður alla erlenda greiðslumiðlun sparisjóðanna.

Byr hefur í framhaldi af þessu ráðið til sín 9 fyrrum starfsmenn Sparisjóðabankans til að annast þessi nýju verkefni.

„Byr er í dag stærsti starfandi sparisjóður landsins og lá því beint við að sjóðurinn tæki að sér þessa þjónustu við sparisjóðina í landinu,“ segir í tilkynningunni.

„Markmiðið er að viðskiptavinir sparisjóðanna verði ekki fyrir skertri þjónustu hvað varðar greiðslumiðlun innanlands en einnig var talið mikilvægt að erlend greiðslumiðlun á vegum sjálfstæðra fjármálastofnana legðist ekki af. Því er þessi breyting stór þáttur í endurreisn íslenska fjármálakerfisins og tryggir að neytendur hafi sem fjölbreyttasta valkosti í fjármálaþjónustu.“