„Við erum pínulítið smeykir og þurfum fara að taka þetta rólega,“ segir Ólafur Torfason, hótelstjóri á Grand Hóteli Reykjavík. Hann er umsvifamikill í ferðaþjónustu, rekur m.a. Fosshótel víða um land. Fyrir þremur árum opnaði hann ferðaskrifstofuna Iceland Travel í Kína og eru starfsmennirnir sex. Ferðamönnum þaðan hefur fjölgað mikið upp á síðkastið. Fyrsta árið komu kynnishópar, 18 hópar í fyrra og stefnir í að hóparnir verði 60 á þessu ári. Í hverjum hópi eru 10 til 20 manns og eru ferðalangarnir sem væntanlegir eru frá Kína því um 800 talsins í ár.

Nokkuð hefur verið fjallað um það í fjölmiðlum upp á síðkastið að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað mikið hér á síðustu árum og stefni í metfjölda á þessu ári. Þá sagði í Morgunblaðinu í morgun að tekið væri að bera á skorti á gistingu, rútum og leiðsögumönnum fyrir ferðamenn hér á landi.

Ólafi telst til að ferðalöngum frá Kína sem hingað komi á vegum Iceland Travel hafi fjölgað um 300- 400% á milli ára.

„Það er mikið að gera,“ segir Ólafur.