Stilla ehf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar og Hjálmars Kristjánssonar, hefur ákveðið að leggja fram samkeppnistilboð í allt hlutafé Vinnslustöðvarinnar hf. vegna fram komins skyldutilboðs Eyjamanna ehf. til yfirtöku á félaginu til hluthafa í Vinnslustöðinni hf. sem kom fram 9. maí og gildir frá 13.maí 2007 til 11. júní 2007. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Stilla ehf. og tengd félög eiga samtals 25,79 % af heildarhlutafé félagsins. Markmið Stillu ehf.er að eignast allt hlutafé félagsins.

Tilboðið er gert af hálfu óstofnaðs eignarhaldsfélags í eigu Stillu ehf. Tilboðsverð verður krónur 8,5 á hvern hlut. Verð þetta er um 85 % hærra en boðið er í hvern hlut í skyldutilboði Eyjamanna ehf. sem nú er í gildi. Þetta verð er raunar það hæsta sem boðið hefur verið í hlutabréf í félaginu.

Það er mat Stillu ehf. að samkeppnistilboðið endurspegli sanngjarnt raunvirði félagsins í dag þegar tekið er tillit til afkomu og eigna félagsins svo og verðlagningu sambærilegra félaga í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum misserum. Með hliðsjón af þessu telur Stilla ehf. að tilboð Eyjamanna ehf. sé of lágt og sé fjarri því að endurspegla sanngjarnt mat á virði félagsins.

Það sé raunar staðfest í viðskiptum sem hafa verið með hlutabréf í félaginu í kauphöll eftir að yfirtökuskylda myndaðist og áður en skyldutilboðið var sett fram 9. maí en gengi hlutabréfa í félaginu þann 8.maí var krónur 8,30 á hlut. Þess er ekki getið í skyldutilboðsyfirliti Eyjamanna ehf. og endurspeglar yfirlitið þvi ekki rétt verðmæti félagsins þegar skyldutilboðið var sett fram, segir í tilkynningunni.

Stilla ehf. fyrirhugar sömu áherslur og verið hafa í starfsemi félagsins eftir yfirtökuna. Stilla ehf. telur ákjósanlegt að reka öflugt sjávarútvegsfyrirtæki eins og Vinnslustöðina hf. í Vestmannaeyjum enda séu þar kjöraðstæður fyrir slíka starfsemi.

Stilla ehf. er ósammála fyrirætlunum Eyjamanna ehf. að afskrá félagið úr OMX/ Kauphöll Íslands hf. og hyggur á áframhaldandi skráningu þess í OMX/ Kauphöll Íslands hf. sé þess kostur. Í því skyni hyggst Stilla ehf. í kjölfar yfirtökunnar selja stóran hluta hlutabréfa í félaginu til ýmissa aðila sem hafa áhuga á rekstri öflugs sjávarútvegsfyrirtækis í Vestmannaeyjum sem skráð sé í kauphöll.

Telur Stilla ehf. að virk verðmyndun á markaði þjóni best hagsmunum félagsins og hluthafa þess og tryggi áframhaldandi rekstur og uppbyggingu félagsins. Takist það ekki mun félagið vera á samstæðugrundvelli talsvert skuldsett að yfirtökunni lokinni þar sem Stilla ehf. hefur í hyggju að fjármagna umtalsverðan hluta kaupverðsins með lánsfé. Getur þá komið til þess að félagið verði afskráð úr OMX/Kauphöll Íslands hf. með þeim afleiðingum að verðmyndun og viðskipti með hluti í félaginu verði fremur óvirk.